Fróðleikur
 

Myndun hárs

Hár myndast í upphafi með þeim hætti að húðin þrýstir sér niður í gegnum húðlögin þar til hún nær til æða sem gefa henni blóð.  Æðar þessar mynda æðarnabba sem á fræðiheiti kallast Papilla.  Þá getur frumuskipting átt sér stað til þess að framleiða hár.  Það hár sem við sjáum er dautt en vaxtarhluti þess er djúpt í húðinni þar sem erfitt er að ná til þess. Hvert hár hefur sinn eigin fitukirtil sem sér því fyrir seyti til verndar.  Meðaltals fjöldi hárróta á höfði eru um 100.000.og fer fjöldi þeirra eftir háralit.  Hver hárrót gefur af sér mörg hár á líftíma sínum.  Hvert hár vex í 2-6 ár, hvílist síðan í um 100 daga áður en það dettur af og nýtt hár tekur stöðu þess.

Rauðhærðir hafa um   90.000 hár
Svarthærðir hafa um  108.000 hár
Brúnhærðir hafa um   110.000 hár
Ljóshærðir hafa um    140.000 hár

Hárþvottur

Í hugum margrar er hárþvottur svo sjálfsagður hlutur að fólk telur það ekki skipta neinu máli hvaða hárþvottaefni eru notuð.  Því miður eru það þó nokkrir sem bera ekki meiri umhyggju fyrir hári sínu en það að þeir nota jafnvel sápuna á sundstöðum til hárþvottar.  Það sem veldur því er sá útbreiddi misskilningur að hárþvottaefni séu öll eins og aðeins til þess að þvo burt óhreinindi.

Neytendasamtök um allan heim hafa  lent í þeirri gryfju að ráðleggja fólki að nota bara þau efni sem eru ódýrust. Til eru þeir sem vilja vekja á sér athygli með því að þvo sér ekki um hárið svo árum skiptir og mæla með því að nota ekki hárþvottaefni, því að það sé svo ónáttúrulegt að nota þau. Oft er því erfitt að gera sér grein fyrir því hver hafi á réttu að standa.  Því er ekki úr vegi að athuga þá fræðilegu þætti sem vísindamenn leggja til grundvallar þegar hárþvottaefni eru metin.

Hreinlæti

Hreinlæti er hluti af heilsuvernd.  Hárþvottaefni verða að fjarlægja óhreinindi, dauðar húðfrumur og fitu úr hárinu, sem geta verið gróðrastía fyrir gerla.  Óþægileg lykt af óhreinu hári stafar að mestu leiti vegna þessara gerla.  Hárið er öðruvísi að uppbyggingu heldur en aðrir líkamshlutar, að því leiti að það getur ekki endurbætt sig.  Gott ástand hárs er undir því komið, hvernig það losnar við gerla og óhreinindi.  Séu gerlar og óhreinindi látin óáreitt í hárinu getur það valdið hársvarðarsjúkdóm.  Hársjúkdómafræðingar segja að kvillum í hársverði hafi fækkað mikið síðan fólk byrjaði að þvo sér um hárið vikulega eða oftar.

Litur hárs og gljái

Gljái hársins er að hluta til vegna þeirrar náttúrulegu olíu sem umlykur húð og hár.  Sé notað of sterk hárþvottaefni verður hárið matt, bæði vegna þess að það opnar ysta lag hársins og þvær burtu alla náttúrulega olíu sem er hárinu nauðsynleg.  Sýrustig þessarar náttúru olíu er pH.4,5-5,5. Þetta sýrustig verður að vera í jafnvægi til að halda burtu gerlum og bakteríum. Verði ástands húðar og hárs aftur á móti basíst verður það gróðrastía fyrir þau vandamál sem gerlar og bakteríur geta valdið.  Óhreinindi og fita í hári deyfir hinn eðlilega háralit.  Óhreint hár lítur út fyrir að vera dekkra og er oft lýti á útliti mannsins.

Léleg hárþvottaefni draga úr teygjanleika hársins og valda rafmögnun í hári. Það er því nauðsynlegt fyrir fólk að vanda valið þegar hárþvottaefni eru annarsvegar. Því miður  er það alltof algengt að fólk vandar sig ekki nógu vel við að þvo hár sitt og skoli hárþvottaefnin ekki nægjanlega vel úr.  Þessi óvandvirki hárþvottur getur valdið því að sápuefni ganga í samband við húðfitu og óhreinindi í hárinu.  Þetta efnasamband getur síðan valdið ertingu í hársverði og þegar einstaklingurinn klórar sér síðan, getur það valdið sveppasýkingu og öðrum hársvarðarsjúkdómum.                                         

Rakagefandi

Þó að hárið sé dautt þegar það kemur út úr húðinni þá er ekki þar með sagt að það geti ekki orðið fyrir eðlis og efnabreytingum.  Hár er til dæmis mjög viðkvæmt fyrir raka.  Hér áður fyrr var hár notað í rakamæla til að mæla raka í timbri.  Hár sem er í góðu ástandi getur lengst um 30 % við raka, þegar það þorna síðan aftur þá dregst það saman  í sömu lengd.  Í þurru loftslagi eins og er hér á landi sérstaklega um vetrartímann, er nauðsynlegt að hugsa um rakagefandi efni fyrir hárið.

Mikill þurrkur í hársverði og hári er oftast nær rakaskorti að kenna.  Það er því ekki undarlegt að mest seldu hársnyrtivörurnar hér á landi eru rakagefandi. Það má í reynd segja að rakagefandi efni séu það sem kalla má normal við íslenskar aðstæður.  Það hafa orðið byltingakenndar breytingar á framleiðslu á hársnyrtivörum á  síðasta áratug.  Þessar breytingar hafa fyrst og fremst komið fram hjá þeim rannsóknarfyrirtækjum sem sérhæfa sig í að framleiða hársnyrtivörur fyrir hársnyrtifólk.